föstudagur, apríl 01, 2005

::: enn af gini og tónikki, part I :::

Að morgni þriðjudagsins 22. mars s.l. var haldið af stað frá aey í þotunni hans gunna sigurbjörns. Þota þessi er af gerðinni nissan micra og er hún rauðbrún að lit. Fer engum sögum af ferðalagi þessu fyrr en komið er í bjarkargötu í rvk, n.t.t. fyrir utan hús frímanns flugkappa. beið þar okkar rúta nokkur er ferjað hefur margan popparann þvert og endilangt um landið okkar í möööööörg ár og má nærri geta að meyjar tvær eða þrjár hafi orðið undir mörgum popparanum þar um borð. Eftir að farangur og hljóðfæri og popparar og tæknimenn og fylgifiskar og fylgikvillar höfðu stigið um borð var haldið af stað til fyrirheitnalandsins númer eitt.. flugstöð leifs eiríkssonar. Ferðalagið gekk eins og í sögu þó nokkuð væru nokkrir af ferðamönnum farnir að sjá í hyllingum glæran drykk með sítrónusneið útí og jafnvel var allnokkuð vart við reykstautaþörf hjá einangruðum hópi ferðalanga.
Það fór svo á endanum að það tókst að koma 1/2 rúmlest af farangri og hljóðfærum á færibandið í flugstöðinni og lá þá leiðin beinast á barinn á neðri hæðinni. Var þar þétt setið af mússíköntum og fylgifiskum. Allir voru sammála um að G&T hefði sjaldan bragðast betur heldur en akkúrat þarna þriðjudaginn 22. mars tvöþúsundogfimm klukkan 15. Þar sem við álitum að við hefðum einungis 90 mínútur til stefnu tóku menn drykkjunni eins og hverju öðru verkefni sem þyrfti að leysa af hörku og staðfestu. Öllum til ómældrar gleði var fluginu frestað um u.þ.b. fjörtíu mínútur, sem þýddi bara eitt.. fleiri ferðir á barinn.....
Fer nú engum sögum af ferðalaginu, nema að talið er að flugið og síðan rútuferin frá híþþró á hótelið okkar fína hafi gengið snurðulaust fyrir sig og án áfalla. Líklegt er að einhverjir af fylgifiskum og þ.á.m. undirritaður hafi brugðið undir sig betri fætinum og farið á hótelbarinn til að halda áfram úttekt á G&T um víða veröld. Satt best að segja eru engir til frásagnar um hvað í rauninni gerðist þarna (nema kannski Jón Ársæll), enda eru það óskrifuð lög tæknimanna í poppbransanum að halda sögum innan hópsins. Þó vaknaði undirritaður í óskaplega góðu rúmi á óskaplega fínu herbergi með ekkert óskaplega fína kúlu á höfðinu.

Líkur hér fyrsta hluta ferðasögunnar... kannski kemur meira seinna...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home