miðvikudagur, maí 25, 2005

::: skrýtið :::

Já stundum er skrýtið... stundum ekki...
Afar skrýtið finnst mér að ég heyrði þá kjaftasögu að ég væri að flytja til Reykjavíkur og brást ég eins við því eins og flestum kjaftasögum... með glotti... Jú það virðist nefnilega vera þannig að sumir kallar og sumar kellingar hafi ekkert betra við tíma sinn að gera annað en að búa til sögur um náungann... ég ætla ekkert sérstaklega að bendla kjaftaklúbbinn í söluskálanum á hvammstanga við sögusagnirnar í þetta skiptið..
Það skrýtna við þetta er að það getur vel verið að kjaftasagan hætti að vera kjaftasaga, þ.e.a.s. að sagan sem eitt sinn var tilbúningur í einhversmannsbarka missi tilgang sinn og verði að frétt... hver veit..

hér smá handa honum Jóni Þór sem situr næturvaktir í tjallalandi og hefur lítið að gera:

Egill Skalla-Grímsson er sonur Skalla-Gríms Kveldúlfssonar og Beru Yngvarsdóttur Talið er að þau hafi eignast fjögur börn, Egil, Þórólf og tvær dætur sem eru á milli þeirra í aldursröðinni. Þórólfur fæðist árið 900 og Egill 10 árum síðar. Auk þess átti Egill eina fóstursystur, Ásgerði.

Á fyrstu uppvaxtarárum Egils kemur það strax í ljós að honum muni svipa mikið til föður síns, þ.e. verða mjög ljótur, svartur á hár, dökkur yfirlitum en mjög öflugur að vígi og geysilega sterkur. En annað var með bróður hans sem var mjög myndarlegur og mikill "glansgæi" og allstaðar velkominn. Snemma kemur upp öfund Egils í garð Þórólfs.

Þegar Egill er 17 ára fer hann í sína fyrstu utanferð með Þórólfi, bróður sínum, eftir þónokkrar erjur við bróður sinn og föður. Egill og Þórólfur verða mjög nánir á ferðalögum sínum og tekst með þeim mikill bróðurkærleikur. Það verður honum því mikill missir þegar Þórólfur deyr í orustu Aðalsteins konungs við smákonunga á Bretlandi.

Þegar Egill fæðist árið 910 er strax ljóst að hann yrði ljótur, mjög sterkur og líkur föður sínum. Egill var orðheppið barn og talaði mikið. Hann var mjög skapmikill og þoldi illa að tapa. Máli okkar til stuðnings koma hér nokkur dæmi.

Foreldrar annarra barna í sveitinni kenndu börnum sínum að tapa fyrir Agli til þess að hann yrði ekki vondur. Ljóst var strax frá byrjun að vín færi illa í Egil en fyrsta "fylleríið" hans var fyrir 3 ára aldur en þá er einnig talið að hann hafi samið sína fyrstu vísu. Til að nefna dæmi um skapofsa Egils, þá drap hann Grím Heggsson eftir að hann hafði niðurlægt hann í ísknattleik. Einnig drap hann uppáhaldsvinnumann föður síns í hegningarskyni fyrir að faðir hans drap Þórð vin hans. Svo til að komast ti l Noregs með bróður sínum Þórólfi, leysti hann landfestar á skipi hans í vondu veðri og munaði litlu að skipið brotnaði í spón og eyðilegðist. Eftir þetta leyfði Þórólfur Agli að koma með sér til Noregs, en þá var Egill orðinn 15 ára gamall. Þegar Egill kom til Noregs róaðist hann nokkuð og náði stjórn á skapi sínu.

Egill var strax á unga aldri klaufskur í samskiptum við annað fólk sökum þess hve skapbráður hann var og ofbeldisfullur og hikaði hann ekki við að drepa þá sem honum líkaði ekki við. Af þessum sökum átti Egill fáa vini, í rauninni aðeins tvo sem hægt væri að kalla góða vini. Annan þeirra drap reyndar Skallagrímur, pabbi Egils snemma í sögunni, en hinn, sem heitir Arinbjörn, var vinur hans alla söguna.

Samkomulag Egils við foreldra og systkini var líka óvenjulegt. Móðir Egils hældi honum fyrir allt. Það var alveg sama hvern hann drap og hvað hann gerði; Hún sagði að það væri gott hjá honum og hann yrði góður víkingur.

Faðir Egils var ekki á sama máli og reyndi að ala hann upp en þá fór Egill bara í fýlu og talaði ekki við hann í eitt ár.

Þórólfur, bróðir hans, og Egill voru ágætis vinir en þó held ég að Þórólfur hafi verið hálf hræddur við Egil því hann gerði allt sem Egill vildi og mótmælti honum aldrei.

Samkomulagi Egils við kvenpersónur aðrar en skyldmenni er ekki mikið lýst. Tel ég það stafa af því að Egill hafi ekki verið beint þessi "mjúki", huggulegi maður sem konur voru æstar í. Reyndar er einu sinni sagt frá veislu þar sem Egill var eitthvað að huga að hinu kyninu og gengu þau samskipti ágætlega.

Egill var mikið skáld og orti mikið af mjög góðum kvæðum. Þegar Egill var aðeins 3 vetra orti hann sitt fyrsta kvæði í veislu hjá Ingvari afa sínum. Þetta kvæði sem Egill á að hafa samið þykir frekar erfitt og ólíklegt að Egill hafi raunverulega samið það aðeins þriggja ára.

Þegar Egill var 7 vetra samdi hann annað kvæði sem er mun einfaldara en það sem hann samdi þegar hann var þriggja vetra.

Egill orti til að tjá tilfinningar sínar, koma sér í stuð áður en hann fór í bardaga, til að monta sig og við mörg önnur tæækifæri.

Í Eglu yrkir Egill þrjú löng kvæði við ólíkar aðstæður. Þar ber að nefna Höfuðlausn, sem hann orti til að biðja Eirík Noregskonung um að gefa sér líf. Í Höfuðlausn er Egill að tala um hve Eiríkur konungur sé góður og æðislegur.

Annað langa kvæðið sem Egill yrkir heitir Sonatorrek. Það kvæði er helsta kvæði Egils og orti hann það vegna dauða sona sinna sem hétu Böðvar og Gunnar. Í Sontorreki lýsir Egill sinni miklu sorg og reiði sinni í garð Óðins fyrir að hafa tekið syni hans. Í seinni hluta kvæðisins byrjar Egill samt að draga úr ásökunum og þakkar eiginlega Óðni fyrir skáldskaparhæfileikana sem Egill hafði. Í þessu ljóði lýsir Egill miklum tilfinningum og sorg.

Þriðja langa kvæðið sem Egill orti heitir Arinbjarnarkviða og er um vin Egils sem hét Arinbjörn. Þetta kvæði orti Egill þegar hann frétti að Arinbjörn væri farinn aftur til Noregs vegna þess að fóstursonur hans var búinn að taka við konungdæmi þar.

Eru þetta þrjú lengstu kvæðin sem Egill orti. Hann samdi líka ótrúlegan fjölda af vísum við ýmsar aðstæður og mun enginn koma í stað Egils sem skáld.

Allt frá bernsku var Egill mikill ofsamaður. Hann vildi ekki láta segja sér fyrir verkum eins og kemur mjög vel fram þegar Skalla-Grímur, faðir Egils, drap ambáttina Brák, sem var í uppáhaldi hjá Agli. Egill tók þessu afar illa og gekk svo langt að drepa besta vin föður síns, sem jafnframt var húskarl hans.

Snemma koma skáldeiginleikar Egils í ljós og ljóðin og braghendingar hans voru eitt helsta tæki hans til tjáningar. Hvor Egill hafi verið tilfinningaskertur eða ekki verður seint eða aldrei vitað. Vísir að tilfinningum í garð kvenna kom ekki í ljós fyrr en Egill var kominn á þrítugsaldurinn. Þá giftist Þórólfur, bróðir Egils, Ásgerði, sem Egill hafði þekkt í fjölda ára og var mjög hrifinn af.

Egill var berserkur sem þýðir að hann komst í trylltan bardagaham þegar mest á reyndi. Þessi karlmannlegi eiginleiki Egils fylgir honum allt til dauðadags og er hann einmitt einna frægastur fyrir líkamlegt atgervi sitt, sem og bragsnilli sína.

Sem gott dæmi um hversu mikill víkingur hann var er að hann taldi víkingaferð ekki vel heppnaða nema hann næði í fúlgu fjár og dræpi sem flesta.

Það einkennir persónu Egils alla hans ævi hversu fégráðugur og lítt gjafmildur hann er. Hann reynir ávallt af fremsta megni að krækja í þá aura sem hann mögulega getur náð í, hvort sem hann eignast þá á heiðarlegan hátt eða með drápum og svikum.

Egill fór aðallega í víking í Austurveg og Kúrland. Einnig heimsóttu hann og Þórólfur önnur löngd eins og Danmörk og Frísland. Þær víkingaferðir einkenndust af miklum blóðsúthellingum og annars konar ofbeldi.

Í dæmigerðri víkingaferð fólst meðal annars að ræna og rupla í þeim löndum sem víkingar réðust á. Einnig var óhjákvæmilega eitthvað um bardaga. Víkingar komu svo oftast aftur heim með fullar hendur fjár.

Í ferð Egils og Þórólfs til Kúrlands voru þeir fyrst í stað að sinna sínum málum í næði, þ.e. að rupla, ræna og drepa. Lentu þeir svo fyrir óvæntri andspyrnu heimamanna, sem handtóku Egils og 12 menn hans. Með undraverðum hætti og útsjónarsemi Egils tókst þeim að flýja. En Egill var ekki sáttur við þetta og snéri við til að láta vita að þeir hefðu sloppið og hefðu rænt þá fjármunum. Að sjálfsögðu endaði þetta á því að Egill drap alla á bænum með því að kveikja í húsinu. Svo beið hanna fyrir utan og hj ó þá sem sluppu út úr brennandi húsinu - hinir brunnu inni.

Þessi atvinna hefur væntanlega átt mjög vel við Egil, sérstaklega þar sem hann var mjög skapstyggur og ofbeldisfullur. Þar að auki var hann berserkur.

Egill og Arinbjörn kynnast fyrst þegar Egill dvelur hjá Þóri hersi í Noregi með Þórólfi, bróður sínum, en feður þeirra Egils og Arinbjörns, Skalla-Grímur og Þórir hersir, voru fóstbræður.

Arinbjörn er nokkuð eldri en Egill en þeir verða mjög fljótt góðir vinir. Segja má að Arinbjörn hafi oftar en ekki hjálpað Agli út úr ýmsum vandræðum, sem hann var gjarn á að koma sér í, og þannig oft bjargað lífi hans.

Eitt sinn þegar Egill var á leiðinni til Englands, strandar hann óvart við Norðimbraland, þar sem Eiríkur konungur og Gunnhildur höfðu nýlega sest að. Egill er ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim hjónum en Eiríkur vill láta lífláta Egil undir eins. Á þessum tíma var Arinbjörn háttsettur maður hjá Eiríki konungi en samt sem áður leggur hann Agli lið og reynir að fá konung til að hlífa honum. Konungur leyfir Agli að lifa til morguns, en um nóttina lætur Arinbjörn Egil yrkja lofkvæði um Eirík konung. Það kvæði flytur Egill fyrir konung og það verður til þes að Eiríkur lætur Egil lausan.

Þetta er aðeins eitt dæmi um það hveru góður vinur Arinbjörn reynist Agli á slíkum stundum, en þó án þes að vilja fá eitthvað í staðinn.

Egill og Arinbjörn eru mjög ólíkar persónur og því nánast ómögulegt að skilja hvers vegna þeir verða svona góðir vinir. Egill er sá sem græðir á þessum vinskap en Arinbjörn lendir mjög oft í vandræðum út af Agli. Kannski vill Arinbjörn heldur vera vinur Egils en óvinur og vill þannig allt gera til að halda Agli góðum.

Síðustu ár Egils voru honum mjög erfið og síður en svo skemmtileg. Þegar Ásgerður, kona hans, deyr, getur hann ekki hugsað sér að búa áfram á Borg, m.a. vegna þess að þeim feðgum, Agli og Þorsteini, kom afar illa saman. Hann fluttist þá til Þórdísar, fóstudóttur sinnar, að Mosfelli.

Fljótlega tók ellin að segja til sín og Egill var orðinn hálf sjónlaus og heyrði afar illa. Líkaminn var einnig farinn að gefa sig, fæturnir voru orðnir slappir, allar hreyfingar orðnar hægari og stirðari og einnig var hann farinn að titra örlítið, eins og gengur og gerist hjá gömlu fólki.

Nú, ekki er hægt að segja að fólk hafi hjálpað honum mikið, þvert á móti hæddust t.d. konurnar að honum. Sem dæmi má segja frá því þegar hann var að klöngrast eitthvað þarna úti og datt um spýtu sem lá í vegi fyrir honum. Nokkrar vinnukonur stóðu þar rétt hjá og hlógu og gerðu grín að honum. Egill orti þá vísu sem fjallaði m.a. um það að getnaðarlimur hans væri orðinn "ónýtur"!

Annað dæmi var það þegar hann sat við arineldinn og var að ylja sér. Matseljan skipaði honum þá að hunskast í sæti sitt í stað þess að sitja bara þarna og flækjast fyrir. Þetta var mjög niðurlægjandi fyrir aumingja Egils, þegar kvenfólk var farið að skipa honum fyrir!

En Egill var nú ekki alls kostar laus við grimmdina, þrátt fyrir þetta allt saman. Það var sumar nokkurt að hann vildi fá að koma með á þing. Þórdís, fósturdóttir hans, spurði hann þá hver ástæðan væri fyrir þessari beiðni hans og kom þá í ljós að hann langaði til að kasta öllu silfri sínu yfir mannfjöldann og hlusta svo á bardagann um auðinn. Til allrar hamingju fékk hann ekki leyfi til að fara.

Nokkru seinna fór Egill með tvo þræla með sér að kvöldi til og lét þá hjálpa sér að fela silfrið. Hann drap síðan þrælana svo þeir gæti ekki kjaftað frá. Líklegast hefur hann ekki viljað láta Þorstein son sinn erfa það, en eins og fyrr sagði kom þeim mjög illa saman. Enn í dag er silfrið ekki fundið.

Haustið eftir veiktist Egill og lést skömmu síðar. Hann var jarðaður í Tjaldanesi með vopnum sínum. Seinna var líkið svo flutt og grafið einhvers staðar rétt hjá Mosfelli.

og hananú!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home