::: ævintýrin eeeeenn gerast :::
Þá er best að halda áfram að (endurh)æfa sig aðeins í bloggun enda er vissulega rík ástæða til. Ef ekki núna, hvenær þá?
Eins og þessi dagur byrjaði ósköp venjulega og eins og hver annar dagur; með tiltekt, þrifum og í kjölfarið sturtu, ómældu magni af instant kaffi (djöfullinn danskur), setja í þvottavél og svo sígó.. eða var það öfugt? Man ekki. Einhver kann að spyrja sig “tiltekt, þrif og þvottavél?”.. Já já, svona er þetta bara.. allavega var það svoleiðis í dag.
Núh.. planið var að skreppa niður til Lollands um hádegisbil og kíkja á aðstæður vegna Lys Over Lolland, sem er listafestival sem ég verð að vinna við eins og í fyrra.
Aðalkallinn (ekki ég að þessu sinni) hafði eithvað gleymt sér við skemmtan í gærkv. Svo mikil var gleymskan að hann gleymdi að fara heim til sín alveg þangað til einhvertímann er sólin var farin að láta á sér kræla. Vegna gleymsku þessa annars ágæta manns náðist ekkert í hann fyrr en nokkru seinna.
Títtnefndur Aðalkall fór svo í það að finna bílaleigubíl eins og til var ætlast. Birtist ekki maðurinn niður við Hovedbanegaard á blæjubíl! Reyndar alveg pínulitlum, perluhvítum Fiat 500 S-ú-p-e-r-g-a-y, en blæjubíll var það engu að síður.
Ferðin gekk tíðindalítið fyrir sig þarna suður eftir (fyrir utan að vera 3 gaurar á ofurkynvillingslegum blæjubíl). Aðalkallinn var reyndar pínulítið að kvarta yfir því hvað hann titraði meira á 140 km/h en síðast þegar hann var á svona bíl !?!?!
Auðvitað þurfti svo að stoppa í sjoppu og þóttist ég góður að ekki var það Monarch í þetta skiptið. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er “maturinn” þar eins og maður gæti ímyndað sér gömlu góðu Staðarskála leðurblökurnar, 2 dögum seinna. Eða svona frosna kaupfélagspizzu sem er búið að tví eða þrí frysta/elda frysta/elda og láta svo standa allan daginn undir hitaperu… EN við vorum ekki svo heppnir. Mér þótti a.m.k. ráðlegt að fara öruggu leiðina og panta Pølsemix með tómatsósu og það slap fyrir horn.. er a.m.k. enn í maganum mínum þegar þetta er ritað. Ég er ekki viss um að hinum líði eins vel með sinn fisk (bannað að panta fisk á svona búllum) og durum rúllu (mjög líklega sjálfsdauður útigangsmaður þar innanklæða)…
Við komum loks að byggingunni þar sem hátíðin verður haldin.. og þvílíkt hús! Þetta er gömul sykurverksmiðja, ein af fjölmörgum þarna niður frá. Þarna eru endalaus rými og rangalar af öllum gerðum og í öllu mögulegu ásigkomulagi. Ég get því miður ekki lýst því frekar.. reyni frekar að finna myndir af því og sýna þeim sem vilja.
Ég varð gjörsamlega hugfanginn og langaði strax að byrja að vinna. Það fór einhvernveginn allt í gang í hausnum á mér; hvað mætti gera þarna og hvernig mætti breyta þessu sem minnst o.s.frv… Það skemmdi ekki fyrir að ferðafélagar mínir eru mjög frjóir .. allavega í norðurhluta líkamans.. það standa fáir mér að sporði nú til dags í annarri frjósemi, en það er nú önnur saga.
Svo var haldið heim á leið, þ.e.a.s. ég og óáðurnefndur Hans Madsen sem voru sendir með lestinni frá Nykøbing-F. Þar blasti við okkur tveggja hæða farkostur í formi lestar og hófst þá fyrst ævintýrið. Ég hef aldrei fyrr komið inn í tvílyfta lest. Auðvitað var tekið sér sæti á efri hæðinni, en ekki hvað..
Við vorum svo óheppnir að taka fjölstoppa línuna.. þessa sem stoppar í öllum helstu krummaskuðum, þó víðar væri leitað. Stundum leið svo stutt á milli að lestin hafði ekki náð fullri ferð þegar hún þurfti að stoppa næst. Það var svo sem allt í lagi.. veðrið fallegt og útsýnið flott.
Þegar við erum nú aðeins farnir að nálgast höfuðstaðinn, sé ég að það er líklega Danmerkurmeistaramót í loftbelgjafimi, án atrennu. Þarna voru samankomnir a.m.k. 11 loftbelgir sem hófu sig til himins hver á eftir öðrum. Ég hef heldur aldrei áður séð 11 loftbelgi.. ekki í einu.
Fyrir rest tókst nú að koma lestinni og þeim faþegum sem á annaðborð vildu til Kaupmannahafnar. Hans Madsen var að verða of seinn í bíó svo hann hljóp bara út í loftið. Ég var aftur á móti orðinn svangur og eftir smá rölt og kíking um Hovedbanegaard valdi ég pínulitla indverska búllu og pantaði mér einhverja vitleysu sem reyndist vera pönnukaka með lambakjöti, karrý og spaghetti! Spaghetti heitir örugglega eitthvað allt annað en spaghetti á Indlandi. Ég auðvitað tyllti mér og gúffaði þessu í mig í snarhasti enda svangur orðinn mjög. Við hliðina á mér sátu 3 menn sem töluðu að ég hélt Hindí Án þess að ég sé einhver sérfæðingur í austurlenskum tungumálum þá einhvernveginn bara ákvað ég það. Ómeðvitað og án þess að vera endilega að hlusta á hvað þeir voru að ræða (enda skil ég ekki stakt orði í Hindí) varð mér um og ó þegar ég heyrði sagt “nændín dvenndí-dú”.. Mennirnir voru þá að spjalla saman á ensku allan tímann, Ég verð að játa að ég átti svolítið bágt með að halda munninum lokuðum og sprauta ekki hálftugðu karrý-spaghettí-gumsinu yfir aumingja mennina.. Fljótlega stóð ég upp og yfirgaf svæðið, enda fremur líklegt að minns væri enn undarlegri á svipinn en endranær.
Leiðin lá næst út á strætóplan: Þar var verið að bera látna konu inn í sjúkrabíl! Hún var greinilega ekki lengur á meðal oss því það hafði verið breytt yfir hana alla svona hvíta ábreiðu. Ég veit ekkert hvað gerðist og mér kemur það ekki við. Blessuð sé mining hennar, hver sem hún var.
Svo var það strætó. Hann reyndist vera smekkfullur af fótboltabullum sem virtust afar ánægðir með frammistöðu sinna manna (Brøndby) og höfðu hátt.
Efti söng og trall um nokkra hríð komum við að mótum Amgerbrogade og Hallandsgade þar sem ræningi var myrtur fyrir skömmu af löggunni. Þar hafði einhver bjáni stoppað bílinn sinn á “bus-lane” rétt við stoppistöð og fór ekki betur en svo að strætóbílstjórinn rak strætóinn (hvað annað?) utan í þessa bíldruslu sem stóð þarna á fáránlegum stað. Og þá byrjuðu lætin! 2 menn af erlendu bergi brotnir og annar þeirra a.m.k. eigandi bílsins ruddust inn í strætó og voru ekki í stuði og fannst að sér vegið.. Þeir heimtuðu að bússinn færi ekki fet fyrr en eitthvað væri gert í málinu. Boltabullurnar og aðrir farþegar voru ekki sáttir við að þurfa að bíða eftir einhverju.. og hófst mikið rifrildi.. Ég ásamt hinum friðsömum ekki-bullum yfirgáfum strætóinn og gekk ég rest, hugsandi um hvernig ég gæti bara komist undir sæng einhversstaðar, í það minnsta í öruggt skjól áður en að enn fleiri undarlegir hlutir gerðust. Mér tókst að sækja hjólið mitt á staðinn þar sem ég vaknaði í morgun og þreif, og komast án þess að villast mjög oft (2-3svar) á þann stað sem ég er á núna.. og þóttist nokkuð góður bara.
Nóttin er samt að mestu eftir.
Lifið 1/1
Ritað í Kaupmannahöfn aðfararnótt 3. Maí kl. 0:43
(afritað úr Word í dag ;-) )